Við hjá Sjómælingum Íslands (Sjómælingasvið Landhelgisgæslu Íslands) vorum að gefa út nýtt sjókort, kort nr. 73, Glettinganes - Hlaða.
Kort 73, Glettinganes - Hlaða
Þetta kort leysir af hólmi eldra kort sem Danir gáfu út 1944 og byggði að mestu á handlóðsmælingum sem gerðar voru árið 1898 á skonnortunni Diönu. Diana var í þjónustu Dana frá 1863 til 1903. Diönuboði austur af Gerpi er kenndur við þessa skonnortu http://www.navalhistory.dk/English/TheShips/D/Diana(1864).htm.
Skonnortan Diana
Sjá nánar um útgáfuna á vef Gæslunnar http://www.lhg.is/starfsemi/stjornsyslusvid/frettir/nr/1076.
Bloggar | 6.12.2007 | 15:39 (breytt kl. 16:15) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Í gær var árlegt jólaball Gæslunnar. Strákarnir úti á flugvelli fá bestu þakkir fyrir enn eitt frábært jólaball.
Brynja og Óli skemmtu sér vel. Jólasveinninn ásamt Magna og Birgittu sigu á svæðið.
Brynja, svolítið feimin, með Magna og Birgittu.
Bloggar | 3.12.2007 | 08:58 (breytt kl. 09:00) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 3.12.2007 | 08:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Erum loks komnir á Marriott hótelið í Kansas City. Erum í flottu herbergi á 15. hæð. Icelandair, eða öllu heldur mótvindar frá London að þeirra sögn, settu sitt mark á þessa ferð. Við flugum til Minneapolis í gær og vorum um 45 mín. seinir. Það varð til þess að við náðum ekki í framhaldsflug. Gistum á Days Inn, sem ekki er í sama gæðaflokki og Marriott!
Fengum annað flug í morgun kl. 7. Lentum í sérstöku úrtaki í öryggishliðinu.
NorthWest náði að brjóta annað hjólið af töskunni minni. Það gefur mér tækifæri til að endurnýja ferðatöskuna hér í USA. Var reyndar ekki vanþörf á.
Hér er sól og til þess að gera hlýtt. Það var frost í Minneapolis í gær og í morgun.
Meira síðar af Garth Brooks og Kansas City.
Bloggar | 9.11.2007 | 15:40 (breytt kl. 15:51) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við bræðurnir erum farnir til USA, þ.e. með vélinni til Minneapolis á eftir. Ætlunin er að fara til Kansas City og á tónleika með Garth Brooks á morgun.
Á sunnudaginn förum við á New York Nicks vs. Miami Heat í Madison Square Garden.
Bloggar | 8.11.2007 | 13:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég fór á frábæra tónleika hjá Skólahljómsveit Kópavogs í gær. Gaman að sjá hversu mikið Össur og Helga, ásamt kennurum krakkana ná út úr börnunum.
Allar voru hljómsveitirnar góðar, en C sveitin var alveg frábær. Samhljómurinn var magnaður.
Kærar þakkir til ykkar allra.
Hér eru fleiri myndir frá Landsmóti skólahljómsveita í haust.
http://skolahljomsveit.kopavogur.is/myndir_landsmot_2007.htm
Bloggar | 8.11.2007 | 08:40 (breytt kl. 08:47) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Við bræðurnir erum að fara á tónleika með Garth Brooks á föstudaginn!
Af tveimur góðum, vildi ég þó heldur vera fara á tónleika með Elvis.
![]() |
Garth Brooks orðinn söluhærri en Elvis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 6.11.2007 | 11:16 (breytt kl. 11:43) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
![]() |
Segjast aldrei hafa haft samráð við keppinauta á markaði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | 31.10.2007 | 22:31 (breytt kl. 22:32) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggar | 23.10.2007 | 16:44 (breytt kl. 16:46) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Greinin birtist í Ægi, 6. tbl. 100. árg og í styttri útgáfu í Morgunblaðinu 21. júní 2007.
Opinber rafræn sjókort
Í dag, 21. júní, er Alþjóðlegi sjómælingadagurinn. Á síðastliðnu ári varð Alþjóðasjómælingastofnunin (IHO) 85 ára. Af því tilefni samþykktu Sameinuðu þjóðirnar að gera þennan dag að Alþjóðlega sjómælingadeginum. Í ár er þema dagsins rafræn sjókort (Electronic Navigational Charts, ENC).
Sjómælingasvið[1] Landhelgisgæslu Íslands, Sjómælingar Íslands, hefur það meginhlutverk að sjá sjófarendum við strendur Íslands fyrir sjókortum og ýmsum öðrum sjóferðagögnum er stuðla að öruggri siglingu. Sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar stundar sjómælingar og gefur út yfir 60 sjókort, yfirsiglinga-, strandsiglinga- og hafnakort. Samkvæmt reglum um björgunar- og öryggisbúnað íslenskra skipa þarf sérhvert skip að hafa nýjustu útgáfu nauðsynlegra sjókorta um borð[2]. Sjókort eru sérhæfð kort ætluð til að mæta þörfum sjófarenda. Þau sýna m.a. dýpi, botngerð, lögun og einkenni strandar, hættur, sjómerki og staðsetningu og ljóseinkenni vita. Leiðréttingar á sjókortum eru birtar í Tilkynningum til sjófarenda sem Sjómælingar Íslands gefa út reglulega. Það er á ábyrgð notandans að fylgjast með tilkynningunum og færa í viðkomandi sjókort.
Nýverið hóf Landhelgisgæslan að gefa út rafræn sjókort, en því hefur verið haldið fram að tilkoma ENC korta sé eitt mesta framfaraspor til öryggis fyrir sjófarendur síðan ratsjáin kom fram. ENC kort eru birt í rafrænum sjókorta- og upplýsingakerfum (Electronic Chart Display & Information System, ECDIS).
Rasta- og vigurkort
Stafræn sjókort eru ýmist á rasta- eða vigurformi (vektor) og eru fáanleg frá ýmsum aðilum, bæði opinberum og einkaaðilum.
Rastakort hafa verið notuð hér á landi í nokkur ár. Þetta eru skönnuð sjókort, af pappír eða filmu. Kortin eru síðan kölluð fram í siglingatölvum og sigla" skip í þeim. Þar sem gögnin sem birtast eru í raun aðeins stafræn mynd af sjókorti hefur myndin enga greind" og ekki er hægt að gera fyrirspurnir í tölvukerfið, svo neinu nemi. Tiltölulega auðvelt er að framleiða rastakort.
Vigurkort eru búin til með því að gefa öllum eigindum (línum, punktum og flötum) ákveðin gildi sem geymd eru í lögum í hlutbundnum gagnagrunni. Þegar þessi gögn eru notuð í siglingatölvum er hægt að setja saman kort á þá vegu sem notandanum hentar í hvert skipti en ákveðnar grunnupplýsingar verða þó að koma fram.
Vigurkort hafa ákveðna greind" og hægt er að nota gagnagrunninn til að gera fyrirspurnir; einnig er hægt að láta kerfið vara við hættum á áætlaðri siglingaleið miðað við stefnu, hraða og djúpristu skipsins. Notandinn getur einnig fengið upplýsingar um öll þau fyrirbæri sem sjást á kortinu. Framleiðsla og gæðaeftirlit á vigurkortum er flókin, tímafrek og kostnaðarsöm, en notagildið er mun meira en á rastakortum. ENC kort er dæmi um vigurkort.
Hvað er ENC?
Rafræn sjókort, ENC, eru opinber vigursjókort sem uppfylla skilyrði Alþjóðasjómælingastofnunarinnar og hafa verið gefin út af opinberri sjómælingastofnun viðkomandi lands. Þessi kort eru einu vigursjókortin sem má nota í staðinn fyrir prentuð sjókort.
Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar (IMO) eru ENC kort eingöngu framleidd af opinberum sjómælingastofnunum eða öðrum til þess bærum ríkisstofnunum - eða með leyfi þeirra; hins vegar er hugtakið ENC ekki lögvarið og hefur víða verið (ranglega) notað af einkafyrirtækjum til að lýsa framleiðslu þeirra. Til að taka af öll tvímæli er orðið opinbert" oft notað með ENC.
Um opinber ENC kort gildir eftirfarandi:
ENC er byggt á frumgögnum eða opinberum sjókortum viðkomandi sjómælingastofnunar;
ENC er sett saman og kóðað samkvæmt alþjóðlegum stöðlum;
ENC notar World Geodetic System 1984 viðmið (WGS84 datum);
ENC er á ábyrgð þeirrar sjómælingastofnunar sem gefur það út;
ENC er einungis gefið út af opinberri sjómælingastofnun; og
ENC er reglulega uppfært með opinberum uppfærslum sem dreift er á stafrænu formi.
Sjókortakerfi
Til eru tvenns konar kerfi fyrir rafræn sjókort sem birta stöðu skips á skjá í stjórntækjum skipa. Annars vegar er um að ræða ECDIS kerfi sem uppfyllir skilyrði IMO og SOLAS samþykktarinnar[3] um sjókort sem hafa ber um borð í skipum. Hins vegar eru margskonar önnur kerfi, sem öll eru nefnd ECS, (Electronic Chart System). Þessi kerfi er hægt að nota sem hjálpartæki við siglingu, en þau uppfylla ekki IMO/SOLAS skilyrði um sjókort um borð í skipum.
ECDIS, rafrænt sjókorta- og upplýsingakerfi, er í raun landfræðilegt upplýsingakerfi á sjó og geta skipstjórnarmenn valið að hluta þær upplýsingar sem birtast. Þær geta verið aðrar en kortin, s.s. upplýsingar frá ratsjá, staðsetningartækjum, um veður, aðra skipaumferð (AIS) o.fl.
IMO skilgreinir ECDIS sem rafrænt sjókorta- og upplýsingakerfi sem, með viðeigandi varakerfi, uppfyllir skilyrði um uppfærð sjókort sem krafist er með reglugerð V/19 og V/27 í SOLAS samþykktinni frá 1974. Upplýsingar úr kerfi rafrænna sjókorta og upplýsingar um staðsetningu frá siglingatækjum eru notaðar til að skipuleggja siglingu og fylgjast með áætlaðri siglingaleið. Einnig er hægt að sýna viðbótarupplýsingar tengdar sjóferðinni ef þurfa þykir.
Önnur rafræn sjókortakerfi, ECS kerfi, geta verið í allt frá einföldum GPS handtækjum til háþróaðra sjálfstæðra tölvukerfa sem tengd eru siglingatækjum og sýna stöðu skips á skjá og viðeigandi upplýsingar úr sjókortum úr ECS gagnagrunni. Það sem skilur þau frá ECDIS er að þau uppfylla ekki skilyrði IMO og þar með standast þau ekki opinberar kröfur um sjókort um borð í skipum.
Sumir framleiðendur ECS kerfa búa til vigur- og rastagögn til notkunar í tækjum sínum. Þeir hafa gefið út óopinber sjókort í fjölda ára og skapað sér ákveðna stöðu á markaði. Með þessu frumkvæði stuðluðu þeir að og festu í sessi notkun á rafrænum kortum um borð í skipum. Almennt eru kortin unnin upp úr prentuðum sjókortum eða öðrum gögnum frá opinberum sjómælingastofnunum.
ECS kerfi geta notað ENC kort, rastakort eða önnur kortagögn framleidd af einkaaðilum og virknin getur verið lík og í ECDIS. Sjómælingastofnanir bera enga ábyrgð á nákvæmni eða áreiðanleika þessara óopinberu korta. Þegar ECS kerfi er notað, verða prentuð sjókort einnig að vera um borð og vera sá grunnur sem sigling skips byggir á.
Miðlun á ENC
Miðlun á rafrænum sjókortum á sér aðallega stað í gegnum svæðisbundnar miðstöðvar, og var sú fyrsta, Primar, sett á laggirnar í Noregi. Síðar var önnur stofnsett í Bretlandi, IC-ENC. Strangt gæðaeftirlit og samvinna þessara aðila tryggir gæði og samræmt útlit. Landhelgisgæslan hefur samið við bresku miðstöðina um að miðla íslensku ENC kortunum.
Staðan á Íslandi
Fullyrða má að í flestum skipum og bátum á Íslandi séu notuð einhverskonar stafræn kort. Gæðin eru misjöfn. Sum þeirra er erfitt eða ómögulegt að uppfæra, þannig að segja má að notendur séu oft og tíðum með óuppfærð og ótraust gögn. Sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar ber enga ábyrgð á þeim stafrænu kortum sem eru í notkun í dag, utan þeirra sem gefin eru út af Sjómælingum Íslands.
Sjómælingasvið Landhelgisgæslunnar hefur hafið framleiðslu á ENC kortum. Í ársbyrjun 2006 var fyrsta íslenska kortið gefið út. Núna eru komin út fimm íslensk ENC kort. Stefnt er að því að ljúka þremur til viðbótar á árinu 2007.
Mynd 1. Þekja ENC korta. Heimild: www.primar-stavanger.org/
Níels Bjarki Finsen
Verkefnisstjóri rafrænna sjókorta hjá Landhelgisgæslu Íslands
http://www.lhg.is/
Skammstafanir og tenglar:
AIS Automatic Identification System - Sjálfvirkt auðkenniskerfi
ECDIS Electronic Chart Display & Information System - Rafrænt sjókorta- og upplýsingakerfi
ECS Electronic Chart Systems - Rafræn sjókortakerfi
ENC Electronic Navigational Charts - Rafræn sjókort
IC-ENC International Centre for ENCs - Alþjóðleg miðstöð fyrir rafræn sjókort
IHO International Hydrographic Organization - Alþjóðasjómælingastofnunin
IMO International Maritime Organization - Alþjóðasiglingamálastofnunin
SOLAS SOLAS-samþykktin frá 1974, alþjóðasamþykkt um öryggi mannslífa á hafinu
Facts about charts and carriage requirements
Upplýsingabæklingur um sjókort og notkun þeirra um borð í skipum
[1]Sjómælingasvið er annað tveggja kjarnasviða Landhelgisgæslu Íslands. Allar útgáfur sviðsins eru gefnar út undir nafni Sjómælinga Íslands.
[2]Reglugerðir 122/2004 og 189/1994.
[3] SOLAS-samþykktin frá 1974 er alþjóðasamþykkt um öryggi mannslífa á hafinu.
Bloggar | 11.10.2007 | 14:23 (breytt kl. 14:42) | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar